Fyrirlestrar

Samkennari minn sagðist einu sinni óttast að fólk lærði ekkert hjá mér því það væri svo gaman í tímum hjá mér. Lengi vel trúði ég því sjálf að ég þyrfti að vera alvarleg til að fólk tæki mark á mér. Nú leyfi ég mér að hafa það skemmtilegt og nýt þess þegar áheyrendur mínir hafa það líka.

Hvort viltu vera gleðigjafi eða fýlupúki?

Í fyrirlestrinum er leitað í verkfærakistu jákvæðrar sálfræði, talað er um styrkleika, jákvæðar tilfinningar og hamingjuaukandi aðgerðir. Fyrirlesturinn hentar vel á starfsdögum eða á fundum í félagasamtökum og vinahópum.

„Ragnhildur var einn sá skemmtilegasti fyrirlesari (uppistandari) sem við höfum hlýtt á og fannst okkur við hafa setið og horft á skemmtiatriði í klukkutíma. Við komum út brosandi og brosum enn. Hún gefur góð ráð til þess að æfa jákvætt hugarfar og gerir það á mjög svo skemmtilegan hátt.“

Þórhildur, Ingibjörg og Olga

Nói Siríus hf

Tíu leiðarvísar að farsælu lífi

Í erindinu er fjallað um það sem einkennir fólk sem lifir farsælu lífi og um ljónin í veginum. Erindið byggir á metsölubók Dr Brené Brown The Gifts of Imperfections.

„Stjórn FNS og fræðslunefnd fékk Ragnhildi til að halda erindi fyrir félagsmenn á Degi náms- og starfsráðgjafar sem er árlegur viðburður félagsins. Ragnhildur hélt erindið 10 leiðarvísar að farsælu lífi. Fagþekking, reynsla og styrkleikar Ragnhildar voru greinilegir. Henni tókst með sinni einstöku snilld að fjalla um efni eins og berskjöldun á faglegan og einlægan hátt með „dash“ af húmor sem gerði það að verkum að hún átti salinn allan tímann. Takk fyrir okkur!“

Hildur Katrín Rafnsdóttir

gjaldkeri FNS

Betra er illa gert en ógert

Það að eiga alltaf að vera besta útgáfan af sjálfum sér er óvinnandi vegur. Það er tímabært að við sættum okkur við að vera ófullkomin. Við þurfum að hætta að upphefja að vera önnum kafin. Hófstillt líf er gott líf. Gefum efstastiginu frí og njótum lífsins á afslappaðan hátt. Ég tileinka 2020 meðalhófinu og hef sagt skilið við fullkomnunaráráttuna. 

„Ragnhildur er skemmtilegur fyrirlesari. Hún heldur athygli með fræðandi efni, en gætir þess að hafa fyrirlesturinn líflegan og skemmtilegan og mátti oft heyra hlátrasköll félagskvenna. Öllum bar saman um að þetta hefði verið mjög athyglisverður og skemmtilegur fyrirlestur. Efni sem á erindi bæði til karla og kvenna.“

Anna K. Norðdahl

stjórn BWP