Námskeið

Ég nýt þess að miðla því sem ég hef lært til annarra: Jákvæða sálfræðin, markþjálfun, rannsóknir Brené Brown og efni Lencioni um sterk teymi. Ég þarf ekki að finna upp hjólið en aðlaga það sem ég kann að því sem viðskiptavinurinn þarf.

Kjarkur til forystu

Býður menning vinnustaðarins upp á það að allir þori að tjá sig og leggja fram nýjar lausnir? Eða óttast menn að verða sér til skammar? Að það verði hlegið að þeim? Skömm er helsta hindrun nýsköpunar. Dr Brené Brown segir að það sem heimurinn þarfnast séu hugrakkir leiðtogar og það sé hægt að kenna, mæla og fylgjast með. Dr Brown hefur þróað kennsluefni byggt á metsölubók sinni Dare to Lead og ég hef fengið þjálfun í að nota það. Á vinnustofunni ræðum við fjóra færniþætti hugrekkis. 

„Við viljum allar efla okkur enn frekar sem stjórnendur og sumt er betur til þess fallið en annað. Í þetta sinn lærum við um aðferðafræði Brené Brown sem sýnir okkur hvernig við sköpum ást úr hugarangri. Samúð úr skömm. Sæmd úr vonbrigðum. Hugrekki úr mistökum. Það er gaman að sjá hvað þetta á beinan samhljóm við daglegt starf í Hjallastefnunni.“

Þórdís Jóna Sigurðardóttir

framkvæmdastýra Hjallastefnunnar

Sterk teymi

Líkan Lencioni hefur reynst mjög gagnlegt í að byggja upp sterk teymi. Sterk teymi taka betri ákvarðanir á skemmri tíma, þau nýta hæfni allra og hlusta á skoðanir allra í teyminu. Þau varast að eyða tíma og orku í pólitík, ringulreið og ágreining sem spillir fyrir. Þau skapa forystu í samkeppni og það er skemmtilegra að vinna í sterku teymi. Ég hef rétt á að kalla mig Five Behaviors of a Cohesive Team™ Facilitator því að ég er þjálfuð í að nýta efni frá Lencioni.

„Stjórnendur í kjaradeild voru mjög ánægðir með vinnustofur Ragnhildar um sterk teymi. Greining á teyminu var mjög gagnleg og æfingarnar sem við unnum og umræðurnar í kjölfarið juku traust í hópnum og bættu samstarfið og samvinnu.“

Harpa Ólafsdóttir

deildarstjóri kjaradeildar Reykjavíkurborgar

Ragnhildur var með námskeið um teymisvinnu á starfsmannafundi hjá okkur. Skemmst er frá því að segja að hún var einstaklega líflegur og skemmtilegur leiðbeinandi sem náði að virkja alla með sér og vekja áhuga. Hún braut upp fyrirlesturinn með æfingum þannig að skilaboðin náðu vel í gegn og tíminn hreinlega flaug hjá!

Björg Björnsdóttir

Mannauðsstjóri Skógræktarinnar

Styrkleikamiðuð stjórnun

Rannsóknir sýna að þegar við notum styrkleika okkar erum við ánægðari, komum meiru í verk og erum líklegri til að ná markmiðum okkar. Með því að greina styrkleika allra í teyminu og keyra niðurstöðuna saman kemur í ljós hvar styrkleikar liggja og hverjar áskoranir eru.

„Stjórnendur Minjastofnunar fengu úrlestur á eigin styrkleikum og síðan var unnið með styrkleika teymisins á sérstakri vinnustofu. Við vorum sammála um að þetta væri bæði gagnlegt og skemmtilegt. Ragnhildur er einstaklega skemmtilegur leiðbeinandi.“

Kristín Huld Sigurðardóttir

forstöðumaður

Hannaðu líf þitt

Designing Your Life (Hannaðu líf þitt) er eitt vinsælasta námskeið sem haldið er í Stanford háskóla í Bandaríkjunum. Þar hafa Burnett og Evens aðstoðað háskólanema við að átta sig á því hvað þeir ætli að gera næst. Hvernig þeir vilja hafa líf sitt. Þeir félagar leita í smiðju til Design Thinking og segja að breytingar krefjist hönnunarferlis, til að átta sig á því hvað við viljum og hvernig við náum því. Þessi aðferð gagnast fólki á öllum aldri sem veltir því fyrir sér hvað skuli gera næst, hvað það langi til að gera og hvað það geti gert.

„Ragnhildur er algjörlega frábær kennari, hún kemur efninu svo skemmtilega frá sér og ýtir manni ljúft en örugglega útfyrir þægindarammann 🙂 Magnað námskeið. “

„Vinnustofa sem flestir komnir um miðjan aldur ættu að fá tækifæri á að sækja.“

„Mjög gagnlegt námskeið fyrir þá sem eru tilbúnir að pæla og leggja sig fram í að breytingar verði í lífinu.“

„…frábært námskeið og góður kennari. Game changer.“

Jákvæðni og vellíðan í lífi og starfi

Góð líðan leiðir til betri heilsu, meiri sköpunar, betri tengsla, langlífis og bættrar frammistöðu. Á námskeiðinu eru kynntar rannsóknir jákvæðrar sálfræði á einstaklingum sem ná á farsælan hátt að þroskast og aðlagast ólíkum aðstæðum í lífi sínu. Námskeiðið er ætlað þeim sem vilja vera jákvæðir og glaðir í lífi og starfi og vilja fá hugmyndir um hvað þeir geta sjálfir gert til að auka hamingju sína og vellíðan.

Þakka þér kærlega fyrir frábært innlegg á starfsdeginum okkar. Það sló tóninn fyrir daginn – fólk fylltist af krafti, gleðin var ríkjandi og afraksturinn úr hópavinnunni var árangursríkur.

Soffía Lárusdóttir

forstöðumaður Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins

„Þetta var dásamleg kvöldstund sem ég gekk mjög innblásin útaf og hlakka til að nýta mér þessi tól í lífi og starfi.“

Að8sig

Ég fékk tækifæri til að taka þátt í þróun námskeiðs sem var styrkt af Erasmus og ætlað aldurshópnum 50+. Tilgangur námskeiðsins, að átta sig, er að styðja þá sem finna hjá sér þörf eða löngun til að vega og meta styrkleika sína og langanir, skoða markmið sín og íhuga næstu skref.

 

„Frábær lífsreynsla“

„Frábært námskeið með frábærum leiðbeinanda.“

„Þetta námskeið getur hjálpað fólki á öllum aldri.“

Samkennd

Eftirsóknarverðustu hæfniskröfur á vinnumarkaði árið 2020, samkvæmt Alþjóða efnahagsráðinu (World Economic Forum), verður í fyrsta lagi að geta leyst flókin vandamál, í öðru lagi skapandi og gagnrýnin hugsun og í þriðja lagi mannleg samskipti. Starfsmenn og stjórnendur þurfa að geta tileinkað sér samkennd (empathy) eða hæfileikann til að skynja, þekkja og taka tillit til tilfinninga annarra. Samkennd kemur ekki af sjálfu sér, við þurfum að læra að sýna samkennd og æfa okkur. Samkennd er grundvöllur trausts – og traust er grundvöllur farsælla samskipta.

 

Í vinnustofunni er fjallað um samkennd og velvild í eigin garð út frá kenningum vísindamannanna Brené Brown, Theresa Wiseman og Kristin Neff.

Flott efni og þörf umræða.“

„Mjög skemmtilegur fyrirlesara/uppistandari. Hélt athygli manns algerlega. Passlega langt þannig að maður á auðveldara með að komast úr vinnu. Mjög ánægð!!“

Mastermind hópar – betur sjá augu en auga

„Guð hjálpar þeim sem hjálpar sér sjálfir, ein lítil býfluga afsannar það, Guð hjálpar þeim sem hjálpast að,“ söng Spilverk þjóðanna um árið. Það mætti halda að Spilverkið hefði kynnst aðferðafræði mastermind hópanna því þar er einmitt þetta grunnstef – þátttakendur hjálpast að til að ná árangri. Í mastermind hóp hittast nokkrir einstaklingar reglulega og deila hugmyndum, markmiðum og aðferðum. Þeir styðja hvern annan og hvetja. Lykilatriði er traust og trúnaður. Á þessari vinnustofu er aðferðafræðin kennd og lagður grunnur að farsælu starfi hópanna. Þátttakendur geta myndað hópa í kjölfarið með félögum á vinnustofunni eða öðrum.

Reynsla mín af mastermindhóp er mjög góð. Með því að hitta starfsmenn úr mismunandi deildum fyrirtækisins öðlaðist ég innsýn í þeirra verkefni auk þess sem þeir sáu mín verkefni í nýju ljósi. Skilningur á störfum annarra gagnast ekki eingöngu starfsmönnum heldur einnig fyrirtækinu sem heild. Mér fannst við vinna betur saman sem heild á eftir. Þetta er aðferðafræði sem kom skemmtilega á óvart og gaf mér mjög mikið.“

Unnur María Þorvaldsdóttir

deildarstjóri hjá Landsvirkjun

Markþjálfun – stutt kynning til að kitla bragðlaukana

Er markþjálfun enn ein töfralausnin sem á að bjarga öllu eða er hún þess virði að kynnast henni nánar? Markþjálfun er aðferð sem er notuð til að efla fólk til árangurs. Á námskeiðinu er rakið hvað aðgreinir markþjálfun frá öðrum aðferðum og hvers vegna hún er jafn árangursrík og raun ber vitni. Samtalsaðferðin er kynnt og þátttakendur æfa sig í að beita henni.

„Námskeið Ragnhildar um markþjálfun kom skemmtilega á óvart. Ég vissi ekkert um efnið áður en hún setur það þannig fram að maður kemst ekki hjá því að sannfærast um að það eigi erindi við mann. Það sem ég lærði einna mest af og hef reynt að fara eftir er að maður á hlusta á annað fólk og leyfa því að tjá sig og tala minna sjálfur.“

Jón Þorgeir Einarsson

endurskoðandi

Tíu leiðarvísar að farsælu lífi

Í metsölubókinni The Gifts of Imperfections greinir Dr Brené Brown frá því sem einkennir fólk sem lifir farsælu lífi. Á námskeiðinu er fjallað um leiðarvísana tíu og ljónin í veginum.

„Námskeiðið var í einu orði sagt endurlífgandi, maður gaf sér tíma til að horfa inn á við og meta hvað skiptir máli og hvað ekki. Ragnhildur er einstakur kennari með lifandi persónuleika. Ég mæli hiklaust með þessu námskeiði fyrir alla sem vilja fá meiri gleði í líf sitt.“

Margrét Edda Ragnarsdóttir

verkfræðingur

Leið hetjunnar: Daring Greatly™

og Rising Strong™

Á vinnustofunni könnum við efni eins og berskjöldun, hugrekki, skömm og það að finnast maður verðugur. Milljónir manna hafa horft á TED fyrirlestra Dr Brené Brown um skömm og berskjöldun. Brené, sem er félagsráðgjafi og háskólaprófessor, hefur vakið athygli fyrir rannsóknir sínar. Þessar vinnustofur eru byggðar á metsölubókum hennar Daring Greatly og Rising Strong.

„Framúrskarandi námskeiðshaldari, fyrirlesari sem þekkir og veldur efninu fullkomlega. Opnar nýjan og spennandi heim sem er gaman og gott að fara í gegnum. Mjög áhugavert og mun örugglega gagnast mér í leik og starfi.“