Um mig

 Einn af aðalstyrkleikum mínum er fróðleiksfýsn. Ég var einu sinni spurð hvort ég hefði aldrei jafnað mig á því að hafa lært að lesa og það er nokkuð til í því. Ég les daglega, bæði skáldsögur og fræðibækur og helsta tómstundagaman mitt er að sækja námskeið. Ég nýt þess að hanna námskeið og miðla þannig því sem ég hef lært. Annar styrkleiki minn er húmor og nú leyfi ég honum að blómstra með því að vera í leikspunahópi auk þess að hafa gaman af því sem ég fæst við.

Ég er með MA í sögu og safnfræðum frá NYU, kennsluréttindi frá HÍ, diplóma í starfsmannastjórnun (EHÍ) og var í fyrsta hópnum sem lærði markþjálfun hér á landi. Ég er með PCC vottun frá International Coaching Federation og er vottaður teymismarkþjálfi frá Team Coaching International.  Ég er með diplómu í jákvæðri sálfræði frá EHÍ, Certified Dare to Lead™ Facilitator, Certified Daring Way™ Facilitator og Certified Designing Your Life Coach. Ég er með réttindi til að leggja fyrir Strengths Profile styrkleikagreiningu fyrir einstaklinga og teymi og er Five Behaviors of a Cohesive Team™ Facilitator og er því þjálfuð í að nýta efni frá Lencioni til að byggja upp teymi.

Ég hef víða farið og margt séð. Ég bý í Reykjavík en hef búið í Vík, Jökulsárhlíð, New York, Skógum, Akureyri og Gautaborg. Ég var au pair í Skotlandi og fararstjóri á Benidorm. Ég hef kennt í grunnskóla og framhaldsskóla, unnið á hótelum, ritstýrði Veru (tímariti um konur og kvenfrelsi), var jafnréttis- og fræðslufulltrúi Akureyrarbæjar, íslenskur lektor við Nordens Folkliga Akademi og deildarstjóri starfsþróunar hjá Landsvirkjun.

Ljósmyndina tók Sigtryggur Ari og hún birtist í jólablaði Fréttablaðsins með uppskrift af rauðrófusultu sem ég hafði lumað á í 40 ár. 

Sjálfboðaliði

Enginn einn getur gert allt, en allir geta gert eitthvað. Ég legg málefnum lið sem styðja við konur og börn og brúðkaupsgjöfin til okkar hjóna sumarið 2007 var skólahús í Uganda. Ég er virk í félaginu Göngum saman sem styrkir grunnrannsóknir á brjóstakrabbameini. Félagið var stofnað árið 2007 og veitir vísindamönnum á Íslandi árlega styrki. Fjáröflunarnefnd félagsins hefur notið krafta minna frá upphafi. Haustið 2019 afhenti ég formanni félagsins, Gunnhildi Óskarsdóttur, 1,6 milljónir króna en það var afrakstur fjáröflunarskemmtunar sem ég hélt í tilefni af sextugsafmæli mínu.